<$BlogRSDURL$>
Tónlistarrýnirinn
mánudagur, maí 10, 2004
 
Nik og Jay



Allir þeir dönsku listamenn sem hér hefur verið skrifað um hafa það sameiginlegt að yrkja alla sína texta á ensku. Það er því ástæða til að gera þeim hátt undir höfði sem fylgja ekki eftir þeirri “ensku væðingu” sem á sér stað á Norðurlöndunum. Listamennirnir Nik og Jay eru ungir danir sem rappa á dönsku. Þeir tveir eru reyndar aðeins helmingur hóps sem hefur skrifað tónlist saman og tekið upp í þónokkur ár. Hinn helmingur teymisins eru hljóðupptökumennirnir Jon og Jules. Fjórmenningarnir ákváðu að stilla Nik og Jay upp sem rapp dúett enda voru þeir rappararnir í hópnum. Strákarnir sömdu lög og náðu með þeim stórum plötusamningi sem hefur gert þá að nýjum fyrirmyndum unglinga í Danmörku.

Fyrsta breiðskífan “Nik og Jay” kom út snemma árs 2002 og náði með tímanum algjörri metsölu, enda strákarnir flottir og ungir, svalir á því og rappa um skemmtanalífið, flottar stelpur og ungdóminn svona almennt.

Textagerð þeirra félaga er ansi áhugaverð. Á heimasíðu þeirra er fullyrt að Nik og Jay rappi ekki með setningum eins og “fock din mor” heldur innihaldríkum og djúpum textum sem bera fulla virðingu fyrir náunganum. Þrátt fyrir það er orðið “fock” ansi mikið notað í textunum, þó þeir séu á dönsku. Textarnir fjalla mikið eins og fyrr sagði um “djammið”, dans og flottar gellur eða eins og Nik og Jay myndu segja það “flotte tøsser”. Þeir eiga þó til að hægja aðeins á rússíbanaferð lífsins og yrkja um sambandsslit og vandamál ástarinnar. Lagið “Elsker hende mere” náði miklum vinsældum í Danmörku og er ennþá langstærsta “hittið” þeirra.
Þegar ferill Nik og Jay er skoðaður má heyra að textagerð þeirra er helst til þunn og hugmyndasnauð og þróunin lítil. Það er eins og þeir eigi til lista með setningum sem fara vel dönsku rappi og er þeim raðað saman svona allt eftir því um hvað lagið á að fjalla. Frasar eins og “vinduet ned” og “vi skal til byen igen”, koma allavegana oftar en tvisvar fyrir á tveimur plötum þeirra, og þannig mætti lengi telja.

Það er þó virðingarvert að þeir skuli rappa á dönsku en ekki ensku. En tónlistin er nú ekki alls laus við áhrif annarra. Þessi r&b/hip hop tónlist er alveg eins og kóperuð úr amerísku rappi. Nik og Jay gætu þess vegna verið svartir naglar með gullkeðjur um hálsinn og tóbaksklút á höfðinu, í buxum með klofið á hnjánum, á dýrustu bílunum, búa í svaka flottum húsum og eiga flottustu kærustunar sem virðast þrátt fyrir öll auðæfin ekki eiga fyrir nægilega efnismiklum fötum. Þetta er ímynd Nik og Jay.

Öll umgjörðin er skopleg og hégómaleg og fyrir vikið verða Nik og Jay hálf sorglegir. Þeir eru nú samt stuðboltar og koma réttu stemmningunni á dansgólfið.
Nik og Jay hafa haldið tónleika um alla Danmörku, á Grænlandi og í Færeyjum. Nú hafa þeir sýnt því áhuga að halda tónleika á Íslandi. Þeir tónleikar væru ágæt viðbót við þá tónleika sem haldnir verða hér í ár og gæfu tónleikahaldinu meiri fjölbreytileika.

Nýjasta plata Nik og Jay kom út nú í síðastliðnum apríl og er væntanlega aðeins fáanleg í betri plötubúðum í Danmörku. Rás 2 hefur undir höndum fyrri breiðskífu þeirra þannig að þeir sem eru áhugasamir um að kynna sér Nik og Jay geta hringt og beðið um eitt lag af plötunni. Rýnir mælir með laginu “Elsker hende mere” og “Hot”


Powered by Blogger