<$BlogRSDURL$>
Tónlistarrýnirinn
fimmtudagur, mars 25, 2004
 
Swan Lee

Plötuumslag Swan Lee

Tíska tónlistar fer í hringi rétt eins og fatatískan. Í dag er ákveðin popp-rokk tónlist mikið í tísku og hún er það í Danaveldi í dag. Undir þessa tísku flokkast sveitir á borð við Coldplay og Travis og e.t.v. að einhverju leiti Muse og í Danmörku eru það sveitirnar Mew, Kashmir og Carpark North. Hljómsveitin Swan Lee er þarna engin undantekning, en sú er einnig dönsk.

Tríóið Swan Lee sem hefur að skarta söngkonunni Pernilla Rosendahl, hefur gefið út tvær breiðskífur og kom sú síðari út nú í byrjun mars. Pernilla hefur undanfarin ár verið ein vinsælasta söngkona Danmerkur og verið á milli tannanna á fólki, bæði hvað varðar söng og almenna framkomu á opinberum vettvangi.

Nýja plata sveitarinnar heitir einfaldlega Swan Lee. Áður hefur platan Enter komið út og náði hún gullsölu á hálfu ári. Nýja platan náði hins vegar gullsölu á tveimur dögum.
Tónlist Swan Lee má líkja við margar hljómsveitir en aðallega eru þetta popp-rokk ballöður. Oft minna lögin á tónlist The Cardigans, enda söngur Pernilla lágstemmdur og blíður. Hún hefur enga ofurrödd og gæti ábyggilega ekki sungið neina aðra tónlist en akkúrat þá sem hún gerir núna. Rödd hennar hentar því þessu poppi mjög vel.
Þess má einnig geta að Swan Lee hefur einmitt verið í samstarfi við frændur sína frá Svíþjóð, The Cardigans.
Lögin eru byggð upp eins og hinar týpísku ástarballöður í rokkbúningi. Tríóið semur textana á ensku og fjalla þeir flestir um ástina, forboðnar ástir, upphaf sambands eða sambandsslit. Þó eru textarnir lausir við allar meiriháttar klisju setningar og falla vel að undirspili hverju sinni. Sem dæmi um þetta byrjar eitt lagið á einföldum kántrýgítarleik og eru orð eins og “wind”, “road” og “rocky” notuð í textanum. Og um leið og Pernilla fer að syngja um rigninguna kemur skemmtileg hljóðblanda munnhörpu eða harmonikku jafnvel. Hljóð sem minna mann á akkúrat það sem verið er að syngja um hverju sinni.
Hljómsveitin varar sig samt á því að festast ekki alltaf í því sama og koma með skemmtilega tilraunakafla þar sem farið er út í þyngra rokk, bæði tölvurokk og hrátt gítarrokk. Lagið In Your Life er gott dæmi um þetta.
Svona ganga lögin vel upp og allar útsetningar eru vel heppnaðar. Enda hefur hljómsveitin fengið hjálp við textagerðir og upptökur hjá ekki óþekktari mönnum (í Danmörku) en Tim Christensen, sem reyndar er fyrrverandi kærasti Pernilla.

Við fyrstu heyrn hljómar diskur Swan Lee mjög svo tilbrigðalaus en með tímanum vinnur hann á og er mjög skemmtilega samsettur þegar hlustað er með athygli og einnig í ágætri stemmningu. Þannig að látið ykkur ekki bregða, hlustið bara aftur.

Rýnir mælir með lögunum, I Don’t Mind, Love Will Keep You Warm, Perfume og In Your Life.

Gaffa, mars-2004,
www.swanlee.dk
miðvikudagur, mars 24, 2004
 
Carpark North

Carpark North er ekki ein af þeim hljómsveitum sem urðu til í skóla og urðu svo frægar alveg óvart. Carpark North varð reyndar til í skóla í Danmörku en þegar sú mynd var komin á hana, eins og hún er í dag, var tilgangurinn einn að semja lög og næla sé í plötusamning.
Þrír strákar hittust í efterskole í Danmörku fyrir nokkrum árum. Efterskole tekur aðeins eitt ár og er aukabekkur, gerður fyrir villuráfandi 10. bekkinga. Þess vegna fengu strákarnir ekki mikinn tíma til að móta sína eigin stefnu, æfa mikið eða semja. Það var svo nokkrum árum seinna að einn þeirra, Lau, stofnaði hljómsveit ásamt félaga sínum. Þeim vantaði bassaleikara svo þeir höfðu samband við gamlan hljómsveitarfélaga Lau úr efterskole. Þannig varð hljómsveitin Carpark North til árið 1999. Nafnið á sér alveg sérstaka sögu þar sem það átti að gefa til kynna hvers konar tónlist hljómsveitin spilaði. Nafnið átti að tákna eitthvað hart, hrátt, metal og annað slíkt tengt rokki. “Carpark” fannst þeim alveg ágætis nafn og seinna bættist “North” við nafnið sem gefur til kynna hvaðan hljómsveitin er, þ.e. úr norður Evrópu.

Strákarnir byrjuðu á því að taka upp lögin sjálfir og gefa út. Þegar tónlistin hafði náð til eyrna almennings að einhverju leyti vann hljómsveitin hverja hljómsveitakeppnina á fætur annarri þar sem vinningarnir voru upptökur í einhverjum ákveðnum hljóðverum víðs vegar um Danmörku. Í kjölfarið fengu þeir plötusamning og endurútgáfu plötuna sem þeir höfðu sjálfir tekið upp í alvöru hljóðveri með alvöru hljóðblöndumönnum (pródúserum).

Tónlist Carpark North er hreinræktað popp með rokkívafi. Ef til vill ætti frekar að lýsa henni þannig að hún sé rokktónlist sem verði mjög popptónlistarleg í þeim útsetningum sem lögin eru færð í. Ekki er víst hvort kom á undan, hænan eða eggið. En samkvæmt hljómsveitarmeðlimum er rokkið í fyrirrúmi.
Tónlistin minnir að einhverju leyti á tónlist finnsku hljómsveitarinnar The Rasmus. Við lögin er bætt mikið af hljóðgervlum í stað alvöru hljóðfæra með alvöru hljóðum. Þannig er tónlistin gerð popplegri og meiri spenna ríkir í lögunum.

Carpark North fékk lagið Transparent and Glasslike spilað í dönsku myndinni Midsommer sem fjallar um verulega draugalega og dularfulla hluti. Lagið sjálft hentar einmitt mjög vel í þessu samhengi. Þannig er einnig með restina af tónlist hjómsveitarinnar. Þrátt fyrir bjarta kafla, eins og t.d. í laginu Wild Wonders, er alltaf einhver þungi og dulúð yfir lögunum. En þungi tónlistarinnar segir manni aðeins það að hún er rokktónlist. Þá er markmiði hljómsveitarinnar náð, að vera rokkband, þrátt fyrir nokkur spor utan vegar. Þau spor virka samt ágætlega og gefa hljómsveitinni sín sérkenni.
Margt við hljómsveitina gæti mörgum þótt hallærislegt, bæði útlit og skilgreiningar hljómsveitarmeðlima á tónlist sinni. Hljómsveitinni hefur samt verið gefið það tækifæri að sanna sig og á eflaust eftir að festa sig í sessi í dönsku tónlistarlífi í framtíðinni.

www.carparknorth.dk


Powered by Blogger