Tónlistarrýnirinn
fimmtudagur, febrúar 12, 2004
Mew
Hljómsveitin Mew var stofnuð í Danmörku af nokkrum menntaskólastrákum. Hljómsveitin lagði upp með rokk tónlist en meðlimir hennar höfðu lítinn áhuga á að spila lög eftir aðra svo það hrökk upp af snemma. Fljótlega var því lagst í lagasmíðar og var þegar ljóst að tónlistin yrði ekki sniðin að markaðinum og hljómsveitin færi nýjar leiðir í tónlist. Útkoman var hljómsveitin, Mew, og frumburður þeirra “Frengers” sem kom út vorið 2003.
Gagnrýnendur hafa sýnt hljómsveitinni áhuga og gefið ágæta dóma og stefnir hún á erlendan markað þar sem helsta tækifæri þeirra er e.t.v. í Bretlandi.
Hljómsveitin hefur söngvara innanborðs sem syngur alveg eins og stelpa. Sú rödd gefur tónlistinni ákveðinn blæ og gefur þeim auðvitað þeirra eigin stíl.
Hljómsveitin spilar einhverskonar rokk sem mætti líkja við margar hljómsveitir.
Nú er svo komið að hljómsveitin hefur mikla sérstöðu í Danmörku og enginn getur sett tónlist þessarar hljómsveitar í flokk með öðrum hljómsveitum. En í augum rýnis hefur hún ekki mikla sérstöðu. Tónlistin minnir stundum óneitanlega á tónlist hinnar rammíslensku hljómsveitar, Sigur Rósar. Tónlist Mew er bara aðeins markaðsvæddari og poppaðri en tónlist Sigur Rósar. Þannig að rýni finnst ekki mikið til koma hvað þetta varðar og þá fullyrðingu að hljómsveitin sé öðruvísi en gengur og gerist.
Ofan á þetta allt saman er að finna eitt lag á “Frengers” , “She Spider” sem er einfaldlega bara erfitt að heyra hvort sé með Mew eða hinni dönsku Kashmir!
Ekki svo að skilja að tónlistin sé ekki góð. Tónlistin er bara alveg ágæt og vel á hlustandi. Fólk sem hlustar á hljómsveitir á borð við Sigur Rós, Coldplay, Radiohead og e.t.v. amerískar popp-rokk sveitir, ætti alveg að líka vel við tónlist Mew.
Tónlistin er stundum algjört síbylju rokk í gegn en önnur lög fara með þig í ferðalag. Ýmist ertu stödd/staddur meðal angurværra gítarhljóma úti á sléttum rúmsjó eða uppi á fjalli í þoku. Allt í einu ertu komin/nn í ameríska unglingabíómynd um flækjur og vandamál átján ára útskriftarnema. Þú veist ekki hvort þú átt að vera glöð/glaður eða döpur/dapur því tónlistin rokkar allan tilfinningaskalann þar á milli. Trommuslátturinn smellur vel þarna inn í þar sem hjartað í þér slær ýmist glaðlega og hratt eða dapurlega og hægt, og missir þar á milli úr slög. Hvaða tilfinning gæti þetta verið? Gæti verið að við séum komin að sömu gömlu marg tyggðu tuggunni, ástinni? Já, ætli það ekki, en í þetta sinn virkar hún alveg ágætlega í þeim lögum hjá Mew sem fjalla um ástina.
Rýnir vill mæla með lögunum 156, Her Voice is Beyond Her Years, She Spider og Then I Run.
Þrátt fyrir allan ófrumleikann hjá þessari frumlegu hljómsveit fær hún tvær fjórðupartsnótur fyrir skemmtilega tónlist.
Meira er hægt að fræðast um Mew á www.mewsite.com.
mánudagur, febrúar 02, 2004
sunnudagur, febrúar 01, 2004
Travis- 12 Memories
Hljómsveitin Travis hefur nú gefið út fjórðu plötu sína. Rýnirinn fylgdist ekki með umræðum og gagnrýni um plötuna sem kom út í nóvember en kom höndum yfir plötuna óvænt á dögunum og þar sem hún er frekar ný ákvað rýnirinn að hlusta og rýna í hana.
Platan ber nafnið “12 Memories” en strákarnir hafa mikið sótt djúpt í sínar innstu tilfinningar, efni til að vinna út frá og hafa greinilega verið undir miklum áhrifum af ævintýrum æskunnar. Þetta gengur rýnirinn út frá þar sem auðvelt var að sjá það á tónleikum sem hljómsveitin hélt á Íslandi sumarið 2002. Þar skelltu þeir upp myndum af sjálfum sér og buðu tónleikagestu í ferð um uppvaxtarár sín.
Eins og tónlist Travis ber merki um eru þeir hógværir og ekki með mikla stjörnustæla. Þeir vilja greinilega fá að vera í friði með sinni tónlist, sínum hugsjónum og vera duglegir við að koma tónlistinni fyrst og fremst á framfæri. En fyrir vikið festast þeir svolítið í sama farinu. Fran Healy semur hugljúfar ballöður sem hann reynir að krydda með hráum hljóðfæraleik inn á milli og skipta því lögunum svolítið upp, annars vegar í rokk lög og hins vegar í fallegar melódíur. Samt sem áður eru öll “rokk-lögin” melódíur eins og fyrri lög þeirra í rokkaðri kantinum. Travis er hljómsveit sem gott er að setja á þegar maður fer að sofa en því miður eru síðustu þrír diskar allir eins. Lögin eru öll samin og útsett með sama hætti og sömu hljóðfæra samsetningunni. Á síðustu plötu sveitarinnar “The Invisible Band” átti hljómsveitin lag sem sló heldur betur í gegn, lagið “Sing”. En vandamálið er að á nýjasta afkvæmi þeirra er eins og þeir séu að reyna að búa til annað “Sing”. En án árangurs.
Þrátt fyrir þessi lélegheit hljómsveitarinnar kveður við nýjan tón á stöku stað. Lagið “Walking Down The Hills” hefur glænýjan tón. Byrjun lagsins hefur ágætis takt með trommuheila og hljóðgervlum þar sem svo “pizzastrings” er blandað við. Útkoman er bara nokkuð góð en minnir stundum á ákveðin lög með Radiohead og brotnir hljómar hljómborðsins minna á takta Muse. Það er þó ótrúlegt en satt hvað hraðir brotnir hljómar sem eru dregnir vel út úr þessum ólgusjó gítarhljóma, bassagangs og tromma, virka alltaf vel eins og Muse hefur sannað og einnig Coldplay í laginu “Clocks”.
Einnig reyna Travismenn að fara nýjar leiðir í “The Beautiful Occupation”. En það lag er frekar rokkað með hráum gítarsóluum og er bara að virka vel innan um alla þessa hugljúfu og lágstemmdu tónlist.
Fran Healy stendur eins og venjulega alltaf fyrir sínu með sinni fallegu tenór rödd og heldur lögunum uppi.
Travis fær eina fjórðupartsnótu fyrir viðleytni og hugljúfa tónlist en verður af hinni fjórðupartsnótunni fyrir að koma með lítið nýtt. (því miður var ekki hægt að setja inn fjórðupartsnótu).