Tónlistarrýnirinn
mánudagur, janúar 26, 2004
Kent
Hljómsveitina Kent þarf varla að kynna fyrir þeim sem þetta lesa. Hljómsveitin var stofnuð í Svíþjóð fyrir rúmum áratug. Þá hét hljómsveitin “Havsanglar” eða Hafsins Englar. Hljómsveitin kom sér fyrst á kortið undir núverandi nafni hljómsveitarinnar, árið 1995 með fyrstu breiðskífu sinni “Kent”.
Hljómsveitin hefur fengið góða athygli hér á Íslandi og þegar þriðja breiðskífa þeirra “Isola” (1997) hafði komið út bæði á sænsku og ensku, kom hljómsveitin til Íslands og spilaði á tónleikum og spiluðu þar lög og sungu ýmist á sænsku eða ensku. Það er í raun sorglegt að þeir neyðist til þess að yfirfæra lögin yfir á ensku til þess að koma til móts við markað utan Svíþjóðar, þar sem tónlistin verður í raun bara flottari á sænsku, að mati rýnis.
Þekktasta lag Kent hér er án efa lagið “If you were here” eða “Om du var här”. Lagið er merkilegt þar sem rýnirinn upplifir það með tvennum hætti í senn. Annars vegar sem mjög tregafullt og dramtískt rokklag og hins vegar sem mjög töff popplag með miklum popptakti. Trommuslátturinn og allur hrynur lagsins gerir þetta að verkum. Sérstaklega millikaflinn þar sem trommuslátturinn er alveg eins og í laginu “That thing you do” sem var samið fyrir mynd sem átti að gerast á 7. áratugnum og lagið sjálft átti að vera þess legt. Það er sem sagt svona bítlataktur í því.
Svo er það nýjasti “singúllinn”, “Musik non stop”. Það lag er af nýjustu plötunni “Hagnesta Hill”. Lagið er skilgreint sem diskó-rokk lag og á sú skilgreining vel við. Diskótakturinn kemur skemmtilega út með rokkhljóðfærunum, rafbassanum og rafgítarnum. Þessi tilraun þeirra er mjög vel heppnuð. Þarna má sem sagt heyra svona Abba-taktar.
Þrátt fyrir snilli lagahöfundarins, Joakim Berg sem er jafnframt gítarleikari og söngvari hljómsveitarinnar, leynast veikir punktar inn á milli. Góð stef eiga á hættu að vera endurtekin of oft. Kent er ekki á þeim buxunum að hafa öll lög þrjár mínútur eða styttri og fyrir vikið ofgera þeir oft góðum stefum. Til dæmis í þessum diskó-rokklögum og þannig verða lögin svolítið leiðigjörn. Einnig eru sum lögin bara hreinlega of löng.
Rýnir vill líka nefna að hljómsveitin hljómar á köflum eins og hver önnur popphljómsveit en mikið er gert úr því að hljómsveitin sé aðeins rokkhljómsveit. Kannski að menn ættu að vara sig á að einskorða sig við aðeins eina tónlistarstefnu þar sem þeir eru viljugir að prófa nýja hluti og ættu að vera víðsýnari í skilgreiningum. Að mati rýnis má flokka Kent sem popp-rokkhljómsveit.
Hljómsveitin Kent hefur myndað sinn eigin stíl og eigin sérstaka hljóm. Það mega þeir eiga. Hljómurinn er þeirra eigin án þess þó að þeir verði einhæfir í því sem þeir gera, lögin ná að standa öll ein og sér sem góð verk og eru ekki háð því að hlustandi þekki meira með hljómsveitinni til að skilja pælingar hennar. Í öllum útsetningum er vel fyllt upp í öll skörð með þykkum gítarhljómum og bassagangi og/eða einfaldlega kraftmiklum söng. “Sándið” er þétt og flott og á framtíðina fyrir sér.
laugardagur, janúar 24, 2004
Kashmir
Hljómsveitin Kashmir var stofnuð fyrir tíu árum af fjórum dönskum drengjum. Hljómsveitin hefur gefið út um fjórar plötur og var það ekki fyrr en við útgáfu þeirrar þriðju “The Good Life” (1999) að hljómsveitin tók sér pláss meðal fremstu rokkhljómsveita Danmerkur. Eftir útgáfu síðustu plötu,”Zitilites” (mars 2003), stefndi hljómsveitin á erlendan markað og gengur vel að fóta sig í útlandinu. Hljómsveitin hefur reyndar ekki náð lengra hingað til lands en að vera nefnd af Ólafi Páli eitt sinn á Rás 2, án þess þó að hann hafi spilað lag með hljómsveitinni.
Lag þeirra “Rocket Brothers” hefur náð ágætum vinsældum á norðurlöndunum svo og myndbandið við það lag. Hljómsveitin spilaði á Roskilde Festival síðastliðið sumar við mikinn fögnuð viðstaddra, sem hafa væntanlega verið flestir frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, en þessi lönd hafa að geyma helsta áheyrendahóp hjómsveitarinnar.
Tónlist hljómsveitarinnar hefur verið í stöðugri þróun frá fyrstu árum hennar. Meðlimir hlómsveitarinnar hafa passað sig á að festast ekki í sömu klisjunni. Enda varð hljómsveitin ekki þekkt og virt fyrr en tónlistin hafði þróast verulega og þeir komnir í mikinn nýbylgju ham.
Tónlistinnni má líkja við nokkrar breskar þekktar hljómsveitir, eins og Radiohead, Travis og Coldplay. Umgjörðin á “Zitilites” er öll í anda Radiohead. Lögin öll frekar ólík í byggingu og mismunandi að lengd. Platan byrjar á “Rocket Brothers”, “hittinu” af plötunni, kraftmikið start með góðum takti, ekki of þungt og ekki of létt. Góður millivegur. Strax á lagi númer þrjú eru menn búnir að róa sig niður og komnir með einhverja hippatilfinningu. Þar er það textinn sem fólk á að hlusta á, erindin hafa öll sama hryninn með einföldum gítarhljómagangi undir og textinn á að vera uppbyggjandi, hvernig maður tekst á við erfiðleika. Maður sér fyrir sér hljómsveitina spila á sviði á tónlistarhátið á hápunkti hippatímabilsins.
Svo fara hlutirnir að flækjast. Ýmist kemur harðkjarna rokk eða tölvugert samspil söngs og hljóðgervla.
Söngvari hljómsveitarinnar, Kasper Eistrup, sem er jafnframt aðal texta- og lagahöfundur hefur ágætis rödd sem hentar þesskonar lagasmíðum. Hann hefur bjarta rödd og á auðvelt með að komast upp á háu tónana, sem minnir mann óneitanlega á Matthew Bellamy og Tohm Yorke. Stundum er næstum eins og hann þenji raddböndin lítið og sé lítið að hugsa um að koma tóninum sem best frá sér, og virkar því eins og hann sé að væla. En það “trix” virkar alveg ágætlega fyrir tónlist hlómsveitarinnar, en hann sem betur fer passar hann sig á því að syngja fallegar línur þar sem það á við líkt og í “The Aftermath” sem ég vil kalla Bob Dylan-lag plötunnar.
Útkoman er ágætis ferð um nútíma rokk, sem getur verið ljúft og alger óþolandi síbylja á köflum. Tónlist Kashmir hentar fólki sem er ekki fyrir harðkjarna rokk eða útúrfríkaðar pælingar með samspil gítars og tölvu. Melódískt rokk og góðir textar halda manni við plötuna og fælir mann aldrei frá.
Meira má finna á heimasíðu hljómsveitarinnar www.kashmir.dk
föstudagur, janúar 23, 2004
Tim Christensen
Tim Christensen er ekki þekktur á Íslandi. Í raun er hann þekktur hér, við vitum bara ekki hver hann er. Lagið hans "Right Next To The Right One" er upphafsstef þáttarins um Nikolaj og Julie sem hefur verið sýndur á RÚV.
Lagið hefur slegið í gegn í Danmörku og sjálfur Tim Christensen einnig. Nýlega gaf Christensen út plötuna "Honeyburst" og var henni vel tekið í Danmörku. Lag af plötunni "Whispering at the top of my lung" hefur verið mikið spilað á dönskum útvarpsstöðvum. Má segja að Tim Christensen sé orðin ein af þessum klassísku tónlistarmönnum í Danmörku sem aldrei klikka og alltaf má stóla á. Hann er orðin goðsögn.
Tim Christensen hóf tónlistarferil sinn ungur. Það var samt ekki fyrr en hann gekk til liðs við hljómsveitina Dyzzi Mizz Lyzzi að hann sló í gegn. Hljómsveitin sópaði að sér hverjum verðlaununum í Danmörku á fætur öðru og átti mikilli velgegni að fagna.
Tim Christensen hefur gefið út tvær sólóplötur eftir að hljómsveitin lagði upp laupana árið 1998, "Secrets On Parade", 2000 og "Honeyburst", 2003.
Tónlist Christensen er í léttari kantinum. Hann á mikið af fallegum melódíum sem eru vel sönghæfar án þess að vera klisjukenndar eða leiðigjarnar og þótt ótrúlegt sé einkennast lögin öll af sömu væmninni en standa samt ein og sér og eiga sér engar líkar melódíur. Allar útsetningar í þessum lögum eru gerðar af mikilli nákvæmni þar sem Christensen varar sig á að ofgera engu hljóðfæri og hafa hæfilega mikið af öllu því sem hann blandar saman. Gítarinn spilar þó þarna aðalhlutverkið þar sem Tim spilar sjálfur á gítar og er hálfgerður trúbador. Inn í sum lögin læðast strengir, píanó, rafgítar og "hljómborðshljóð" eins og við þekkjum úr melódíum frá 9. áratugnum. Textarnir fjalla um tilfinningar og ástir. Textarnir eru ekki klísjukenndir og Tim passar sig á að nefna orðið "love" ekki of oft og "love you" enn sjaldnar. Hann syngur frekar um hvað ást er, um hvað hún snýst og allt annað en það að hann sé ástfanginn af hinni einu réttu.
Tim er samt sem áður rokkari og passar sig á að gleyma sér ekki í ástarsöngvunum. Á nýjustu plötu hans "Honeyburst" er hægt að finna mikinn rokk-anda. Lögin "Whispering at the top of my lung" og "Get The Fuck Out of My Mind" (sem er af plötunni Secrets On Parade, 2000) bera merki þess að rafmagnsgítarinn er ekki langt undan og hrái fílingurinn.
Hér er sem sagt dægurlagasmiður sem vert er að kynna sér. Lögin hans munu lifa lengi í Danmörku og verða að klassík. Þetta er vönduð dægurtónlist og ég hvet alla til að kynna sér tónlist Tim Christensen.
Meira má lesa um Tim Christensen á www.timchristensen.dk.