<$BlogRSDURL$>
Tónlistarrýnirinn
þriðjudagur, október 12, 2004
 
Low

Skoska hljómsveitin Low er meira en tíu ára gamalt band. Hljómsveitarmeðlimir eru mormónar og má vel heyra það á textagerð þeirra, þrátt fyrir að þeir eða réttara sagt þau þvertaki fyrir að þau séu Kristið band. Margir ættu ef til vill að kannast við hljómsveitina en hún hélt tónleika hér á Íslandi 1999.

Tónlist Low er samansett af lágstemmdum og angurværum melódíum. Tónhæð laganna er aldrei of há, í flestum tilvikum lág, og allur hjóðfæraleikur er blíður og hægur. Þrátt fyrir að stundum megi heyra hljóð rafmagnsgítars bregða fyrir eða trommum er það allt gert á mjög smekklegan og hljóðlátan hátt. Hljómsveitin spilar aðeins tónlist eins og nafnið bendir til að hún spili.

Þessi hógværð, ef svo má kalla, gerir það að verkum að tónlistin líður bara áfram án þess að maður taki eftir því. Einnig vantar smá tilfinningaþrungann í tónlistina, þar sem þetta á að vera lágstemmd tónlist og tilfinningarík.
Lögin eru líka öll of löng. Þar sem hún er á köflum róleg og einhæf þar sem sum stefin eru endurtekin aðeins of oft, er erfitt að halda einbeitingunni við að hlusta.

Það má nú samt túlka list hljómsveitarinnar þannig að tilgangur tónlistarinnar þurfi þannig séð ekkert að vera fyrir fólk til að hlusta á af athygli. Tónlistin er e.t.v. frekar fyrir einhvers konar hugarástand og til íhugunar, frekar en til skemmtihlustunar. Það er líka hægt að orða þetta þannig, þú setur tónlist Low ekki í bílinn til að halda þér vakandi.

Rýnir mælir með plötunni Things We Lost in the Fire, til hlustunar á rólegu sunnudagskvöldi.

mánudagur, júlí 05, 2004
 
Metallica

Egilshöll 4. júlí

Eins og við var að búast voru tónleikarnir í gærkvöldi massívír og háværir. Metallica lofaði hávaða og það var hávaði.

Tóneikagestir höfðu verið í höllinni frá því klukkan fimm og rokkguðirnir létu bíða eftir sér til klukkan tíu, eftir að Mínus og Brain Police höfðu hitað upp. Rýnir sá þær hljómsveitir því miður ekki vegna tuðrusparks í sjónvarpinu. Fólkið var því að vonum þreytt og ábyggilega þreyttara en hefði átt að vera. Hljómsveitarmenn keyrðu prógrammið hratt og örugglega í gegn. Tóku nýrri lögin fyrir uppklapp og þau eldri og þekktari eftir uppklapp.
Rýni fannst eins og hljóðið væri að stríða Metallicamönnum og þá sérstaklega í seinna gítarsólói gítarleikarans. Það var satt best að segja tilkomumikið að sjá gítarleikarann á til hliðar við sviðið, með alla kastara á sér, með sitt síða svarta hár, spilandi þessa ótrúlegu skala með dúndrandi krafti og öll augun þrjátíuogsexþúsund föst á gítarhálsinum.
Út á tónleikana sjálfa er ekkert að setja eða prógrammið sem slíkt nema hvað að þeir voru góðir.
Fyrir öllu hafði verið hugsað. Nema litlum hlutum sem skiptu gríðarlega miklu máli. Tónleikahaldarar gleymdu að auglýsa að bannað væri að fara með töskur og oddhvassa skartgripi inn á tónleikana. Þetta varð þvílíkt klúður og má segja eiginlega týpískt íslenskt klúður. Eftir tónleikana var fólk næstum fallið í yfirlið bara af því að bíða eftir töskunni sinni, sem öllum hafði verið hent inn í gáminn með númeri en ekki raðað eftir númerum. Lögreglan gerði ekkert í málinu og gæslan stóð öll saman í hnapp að borða pizzu meðan fólk mátti þakka sínu sæla að verða ekki undir og nokkrir gæslumenn með samvisku reyndu að koma reglu á röðina, sem var ógerlegt.
Tónleikahaldara gleymdu líka að sjá fyrir nægu súrefni í salnum. Þetta er alveg dæmigert fyrir Ísland. En Íslendingar verða sjóaðri með hverjum deginum í tónleika- og rokkhátíðahaldi. Þetta verður vonandi gott eftir nokkur ár.

mánudagur, maí 10, 2004
 
Nik og Jay



Allir þeir dönsku listamenn sem hér hefur verið skrifað um hafa það sameiginlegt að yrkja alla sína texta á ensku. Það er því ástæða til að gera þeim hátt undir höfði sem fylgja ekki eftir þeirri “ensku væðingu” sem á sér stað á Norðurlöndunum. Listamennirnir Nik og Jay eru ungir danir sem rappa á dönsku. Þeir tveir eru reyndar aðeins helmingur hóps sem hefur skrifað tónlist saman og tekið upp í þónokkur ár. Hinn helmingur teymisins eru hljóðupptökumennirnir Jon og Jules. Fjórmenningarnir ákváðu að stilla Nik og Jay upp sem rapp dúett enda voru þeir rappararnir í hópnum. Strákarnir sömdu lög og náðu með þeim stórum plötusamningi sem hefur gert þá að nýjum fyrirmyndum unglinga í Danmörku.

Fyrsta breiðskífan “Nik og Jay” kom út snemma árs 2002 og náði með tímanum algjörri metsölu, enda strákarnir flottir og ungir, svalir á því og rappa um skemmtanalífið, flottar stelpur og ungdóminn svona almennt.

Textagerð þeirra félaga er ansi áhugaverð. Á heimasíðu þeirra er fullyrt að Nik og Jay rappi ekki með setningum eins og “fock din mor” heldur innihaldríkum og djúpum textum sem bera fulla virðingu fyrir náunganum. Þrátt fyrir það er orðið “fock” ansi mikið notað í textunum, þó þeir séu á dönsku. Textarnir fjalla mikið eins og fyrr sagði um “djammið”, dans og flottar gellur eða eins og Nik og Jay myndu segja það “flotte tøsser”. Þeir eiga þó til að hægja aðeins á rússíbanaferð lífsins og yrkja um sambandsslit og vandamál ástarinnar. Lagið “Elsker hende mere” náði miklum vinsældum í Danmörku og er ennþá langstærsta “hittið” þeirra.
Þegar ferill Nik og Jay er skoðaður má heyra að textagerð þeirra er helst til þunn og hugmyndasnauð og þróunin lítil. Það er eins og þeir eigi til lista með setningum sem fara vel dönsku rappi og er þeim raðað saman svona allt eftir því um hvað lagið á að fjalla. Frasar eins og “vinduet ned” og “vi skal til byen igen”, koma allavegana oftar en tvisvar fyrir á tveimur plötum þeirra, og þannig mætti lengi telja.

Það er þó virðingarvert að þeir skuli rappa á dönsku en ekki ensku. En tónlistin er nú ekki alls laus við áhrif annarra. Þessi r&b/hip hop tónlist er alveg eins og kóperuð úr amerísku rappi. Nik og Jay gætu þess vegna verið svartir naglar með gullkeðjur um hálsinn og tóbaksklút á höfðinu, í buxum með klofið á hnjánum, á dýrustu bílunum, búa í svaka flottum húsum og eiga flottustu kærustunar sem virðast þrátt fyrir öll auðæfin ekki eiga fyrir nægilega efnismiklum fötum. Þetta er ímynd Nik og Jay.

Öll umgjörðin er skopleg og hégómaleg og fyrir vikið verða Nik og Jay hálf sorglegir. Þeir eru nú samt stuðboltar og koma réttu stemmningunni á dansgólfið.
Nik og Jay hafa haldið tónleika um alla Danmörku, á Grænlandi og í Færeyjum. Nú hafa þeir sýnt því áhuga að halda tónleika á Íslandi. Þeir tónleikar væru ágæt viðbót við þá tónleika sem haldnir verða hér í ár og gæfu tónleikahaldinu meiri fjölbreytileika.

Nýjasta plata Nik og Jay kom út nú í síðastliðnum apríl og er væntanlega aðeins fáanleg í betri plötubúðum í Danmörku. Rás 2 hefur undir höndum fyrri breiðskífu þeirra þannig að þeir sem eru áhugasamir um að kynna sér Nik og Jay geta hringt og beðið um eitt lag af plötunni. Rýnir mælir með laginu “Elsker hende mere” og “Hot”

þriðjudagur, apríl 06, 2004
 
Franz Ferdinand

texti yfir mynd

Seinni hluta ársins 2001 fékk Alexander Kapranos gefins bassi sem hann kunni ekkert á. Vinur hans Bob spurði hvort hann vildi ekki læra á bassann en Alex svaraði því til þannig að hann væri listamaður ekki tónlistarmaður. Bob sagði það vera alveg sama hlutinn.
Þannig hljóðar byrjun sögunnar um hina skosku Franz Ferdinand, hljómsveitarinnar sem heitir eftir Franz Ferdinand hertoga sem var myrtur árið 1914, en það morð kom fyrri heimstyrjöldinni af stað.
Einhvernveginn varð hljómsveitin til í kringum þennan bassa. Nokkrir hljómsveitarmeðlimir kunnu sama sem ekkert á hljóðfærin sem þeir spila vinsæla tónlist á í dag en fyrsta breiðskífa þeirra kom út í síðastliðnum febrúar.

Með tónlistinni er markmið sveitarinnar að fá stelpur til að standa upp og fara að dansa. Tónlistin er nokkuð sveipuð pönki, samt segjast hljómsveitarmeðlimir ekki vera mikið að taka sér breskar pönksveitir til fyrirmyndar og vilja helst ekki skilgreina sig sem pönksveit. Þeir segjast líta upp til hljómsveita á borð við Talking Heads og Sparks. Talking Heads er ein af fyrirmyndum Radiohead en vegurinn á milli Franz Ferdinand og Radiohead er mjög langur.
Yfir tónlist hljómsveitarinnar svífur mikill keimur breskrar tónlistar. Bæði hvað varðar söng, sem minnir stundum á Madness, og allan heildarsvip og ef Bítlaáhrif lát ekki á sér kræla á stöku stað.

Flest lögin lofa mjög góðu í byrjun, en þegar söngurinn tekur við verða vonbrigðin nokkur. Það má reyndar hugsa sér að seta sig í stellingar áður en hlustað er á tónlistina og þá venst söngurinn mjög fljótt. Lögin eru mörg í styttra lagi og væru sum virkilega góðir slagarar. Takturinn ræður öllu um framvindu lagsins. Stundum kemur góði takturinn og flottu stefin þó ekki fyrr en liðið hefur á lagið en mættu koma miklu fyrr. Þessari hljómsveit þarf að sýna svolitla þolinmæði.

texti yfir mynd

Gaffa, mars 2004.
www.franzferdinand.co.uk
fimmtudagur, apríl 01, 2004
 
Jet

texti yfir mynd

Ástralska hljómsveitin Jet hefur nýlega skotið upp kollinum sem framsækin en jafnframt aftursækin rokkhljómsveit, hlotið góða dóma fyrir og náð miklum vinsældum. Af því tilefni ætlar rýnirinn að fjalla stuttlega um tónlist þessarar ágætu hljómsveitar.
Strákarnir í Jet eru mjög hispurslausir, bæði í útliti og tónsmíðum. Þeir eru rokkarar af lífi og sál, með sítt hár, í slitnum gallabuxum og apa flest sem þeir gera eftir hinum og þessum hljómsveitum. Útlit þeirra minnir á Rolling Stones, hugmyndin að plötuumslaginu á “Get Born” er tekin beint frá Bítlunum og söngur og tónlist er undir áhrifum frá Oasis, ACDC, Rolling Stones, The Kinks og The Who.

Hljómsveitina skipa tveir bræður og vinir þeirra. Þeir eru allir uppalnir í Melbourne og eru rétt skriðnir yfir tvítugt. Þeim fannst vanta eitthvað í þá tónlist sem var vinsæl þegar þeir voru unglingar og vildu bæta við meira rokki. Þess vegna leita þeir aftur í eldra rokk.

“Are you gonna be my girl” , hefur náð miklum vinsældum og er mjög grípandi lag. Það er í gömlum stíl eins og öll þeirra tónlist, en strákunum hefur tekist vel til með þetta lag og hafa fengið góðar hugmyndir til að setja það saman með. Textinn í laginu er hispurslaus og alveg laus við alla frasa. Það er mjög blátt áfram að spyrja “ætlarðu að verða stelpan mín?” heldur en að spyrja “viltu verða ástin mín?”, eins og væri spurt í yfirborðsfullum texta nútímapopps.

Aftur á móti eru ekki öll lögin jafn grípandi og “Are you gonna be my girl” sum þeirra drukkna bara í einhverju gítarglamri og trommuslætti, sem sagt hreinu rokki og fellur ekki mjög vel í viðkvæm eyru. Einnig læðast inn á milli róleg rokk lög. Þótt ótrúlegt sé en satt. Hugmyndir þeirra eru engu að síður mjög góðar og virka mjög vel.

Á heimasíðu hljómsveitarinnar er talað mikið um að strákarnir líti mikið upp til Oasis. Rýnir getur ekki alveg sett sama sem merki þar á milli því lög Jet eru yfirleitt ólík innbyrðis og með mismunandi hryn og hljóð tilbrigðum, ólíkt Oasis sem festust í sömu lagabyggingunni. Það eina sem rýnir sér líkt með hljómsveitunum er hrái tónninn og söngurinn. Þá er bara að vona að þeir lendi ekki í sömu tónlistarlegu og persónulegu vandræðum og bræðurnir í Oasis.

Heimasíðu hlómsveitarinnar er að finna á www.jettheband.com.

fimmtudagur, mars 25, 2004
 
Swan Lee

Plötuumslag Swan Lee

Tíska tónlistar fer í hringi rétt eins og fatatískan. Í dag er ákveðin popp-rokk tónlist mikið í tísku og hún er það í Danaveldi í dag. Undir þessa tísku flokkast sveitir á borð við Coldplay og Travis og e.t.v. að einhverju leiti Muse og í Danmörku eru það sveitirnar Mew, Kashmir og Carpark North. Hljómsveitin Swan Lee er þarna engin undantekning, en sú er einnig dönsk.

Tríóið Swan Lee sem hefur að skarta söngkonunni Pernilla Rosendahl, hefur gefið út tvær breiðskífur og kom sú síðari út nú í byrjun mars. Pernilla hefur undanfarin ár verið ein vinsælasta söngkona Danmerkur og verið á milli tannanna á fólki, bæði hvað varðar söng og almenna framkomu á opinberum vettvangi.

Nýja plata sveitarinnar heitir einfaldlega Swan Lee. Áður hefur platan Enter komið út og náði hún gullsölu á hálfu ári. Nýja platan náði hins vegar gullsölu á tveimur dögum.
Tónlist Swan Lee má líkja við margar hljómsveitir en aðallega eru þetta popp-rokk ballöður. Oft minna lögin á tónlist The Cardigans, enda söngur Pernilla lágstemmdur og blíður. Hún hefur enga ofurrödd og gæti ábyggilega ekki sungið neina aðra tónlist en akkúrat þá sem hún gerir núna. Rödd hennar hentar því þessu poppi mjög vel.
Þess má einnig geta að Swan Lee hefur einmitt verið í samstarfi við frændur sína frá Svíþjóð, The Cardigans.
Lögin eru byggð upp eins og hinar týpísku ástarballöður í rokkbúningi. Tríóið semur textana á ensku og fjalla þeir flestir um ástina, forboðnar ástir, upphaf sambands eða sambandsslit. Þó eru textarnir lausir við allar meiriháttar klisju setningar og falla vel að undirspili hverju sinni. Sem dæmi um þetta byrjar eitt lagið á einföldum kántrýgítarleik og eru orð eins og “wind”, “road” og “rocky” notuð í textanum. Og um leið og Pernilla fer að syngja um rigninguna kemur skemmtileg hljóðblanda munnhörpu eða harmonikku jafnvel. Hljóð sem minna mann á akkúrat það sem verið er að syngja um hverju sinni.
Hljómsveitin varar sig samt á því að festast ekki alltaf í því sama og koma með skemmtilega tilraunakafla þar sem farið er út í þyngra rokk, bæði tölvurokk og hrátt gítarrokk. Lagið In Your Life er gott dæmi um þetta.
Svona ganga lögin vel upp og allar útsetningar eru vel heppnaðar. Enda hefur hljómsveitin fengið hjálp við textagerðir og upptökur hjá ekki óþekktari mönnum (í Danmörku) en Tim Christensen, sem reyndar er fyrrverandi kærasti Pernilla.

Við fyrstu heyrn hljómar diskur Swan Lee mjög svo tilbrigðalaus en með tímanum vinnur hann á og er mjög skemmtilega samsettur þegar hlustað er með athygli og einnig í ágætri stemmningu. Þannig að látið ykkur ekki bregða, hlustið bara aftur.

Rýnir mælir með lögunum, I Don’t Mind, Love Will Keep You Warm, Perfume og In Your Life.

Gaffa, mars-2004,
www.swanlee.dk
miðvikudagur, mars 24, 2004
 
Carpark North

Carpark North er ekki ein af þeim hljómsveitum sem urðu til í skóla og urðu svo frægar alveg óvart. Carpark North varð reyndar til í skóla í Danmörku en þegar sú mynd var komin á hana, eins og hún er í dag, var tilgangurinn einn að semja lög og næla sé í plötusamning.
Þrír strákar hittust í efterskole í Danmörku fyrir nokkrum árum. Efterskole tekur aðeins eitt ár og er aukabekkur, gerður fyrir villuráfandi 10. bekkinga. Þess vegna fengu strákarnir ekki mikinn tíma til að móta sína eigin stefnu, æfa mikið eða semja. Það var svo nokkrum árum seinna að einn þeirra, Lau, stofnaði hljómsveit ásamt félaga sínum. Þeim vantaði bassaleikara svo þeir höfðu samband við gamlan hljómsveitarfélaga Lau úr efterskole. Þannig varð hljómsveitin Carpark North til árið 1999. Nafnið á sér alveg sérstaka sögu þar sem það átti að gefa til kynna hvers konar tónlist hljómsveitin spilaði. Nafnið átti að tákna eitthvað hart, hrátt, metal og annað slíkt tengt rokki. “Carpark” fannst þeim alveg ágætis nafn og seinna bættist “North” við nafnið sem gefur til kynna hvaðan hljómsveitin er, þ.e. úr norður Evrópu.

Strákarnir byrjuðu á því að taka upp lögin sjálfir og gefa út. Þegar tónlistin hafði náð til eyrna almennings að einhverju leyti vann hljómsveitin hverja hljómsveitakeppnina á fætur annarri þar sem vinningarnir voru upptökur í einhverjum ákveðnum hljóðverum víðs vegar um Danmörku. Í kjölfarið fengu þeir plötusamning og endurútgáfu plötuna sem þeir höfðu sjálfir tekið upp í alvöru hljóðveri með alvöru hljóðblöndumönnum (pródúserum).

Tónlist Carpark North er hreinræktað popp með rokkívafi. Ef til vill ætti frekar að lýsa henni þannig að hún sé rokktónlist sem verði mjög popptónlistarleg í þeim útsetningum sem lögin eru færð í. Ekki er víst hvort kom á undan, hænan eða eggið. En samkvæmt hljómsveitarmeðlimum er rokkið í fyrirrúmi.
Tónlistin minnir að einhverju leyti á tónlist finnsku hljómsveitarinnar The Rasmus. Við lögin er bætt mikið af hljóðgervlum í stað alvöru hljóðfæra með alvöru hljóðum. Þannig er tónlistin gerð popplegri og meiri spenna ríkir í lögunum.

Carpark North fékk lagið Transparent and Glasslike spilað í dönsku myndinni Midsommer sem fjallar um verulega draugalega og dularfulla hluti. Lagið sjálft hentar einmitt mjög vel í þessu samhengi. Þannig er einnig með restina af tónlist hjómsveitarinnar. Þrátt fyrir bjarta kafla, eins og t.d. í laginu Wild Wonders, er alltaf einhver þungi og dulúð yfir lögunum. En þungi tónlistarinnar segir manni aðeins það að hún er rokktónlist. Þá er markmiði hljómsveitarinnar náð, að vera rokkband, þrátt fyrir nokkur spor utan vegar. Þau spor virka samt ágætlega og gefa hljómsveitinni sín sérkenni.
Margt við hljómsveitina gæti mörgum þótt hallærislegt, bæði útlit og skilgreiningar hljómsveitarmeðlima á tónlist sinni. Hljómsveitinni hefur samt verið gefið það tækifæri að sanna sig og á eflaust eftir að festa sig í sessi í dönsku tónlistarlífi í framtíðinni.

www.carparknorth.dk

fimmtudagur, febrúar 12, 2004
 
Mew

Hljómsveitin Mew var stofnuð í Danmörku af nokkrum menntaskólastrákum. Hljómsveitin lagði upp með rokk tónlist en meðlimir hennar höfðu lítinn áhuga á að spila lög eftir aðra svo það hrökk upp af snemma. Fljótlega var því lagst í lagasmíðar og var þegar ljóst að tónlistin yrði ekki sniðin að markaðinum og hljómsveitin færi nýjar leiðir í tónlist. Útkoman var hljómsveitin, Mew, og frumburður þeirra “Frengers” sem kom út vorið 2003.
Gagnrýnendur hafa sýnt hljómsveitinni áhuga og gefið ágæta dóma og stefnir hún á erlendan markað þar sem helsta tækifæri þeirra er e.t.v. í Bretlandi.
Hljómsveitin hefur söngvara innanborðs sem syngur alveg eins og stelpa. Sú rödd gefur tónlistinni ákveðinn blæ og gefur þeim auðvitað þeirra eigin stíl.
Hljómsveitin spilar einhverskonar rokk sem mætti líkja við margar hljómsveitir.

Nú er svo komið að hljómsveitin hefur mikla sérstöðu í Danmörku og enginn getur sett tónlist þessarar hljómsveitar í flokk með öðrum hljómsveitum. En í augum rýnis hefur hún ekki mikla sérstöðu. Tónlistin minnir stundum óneitanlega á tónlist hinnar rammíslensku hljómsveitar, Sigur Rósar. Tónlist Mew er bara aðeins markaðsvæddari og poppaðri en tónlist Sigur Rósar. Þannig að rýni finnst ekki mikið til koma hvað þetta varðar og þá fullyrðingu að hljómsveitin sé öðruvísi en gengur og gerist.
Ofan á þetta allt saman er að finna eitt lag á “Frengers” , “She Spider” sem er einfaldlega bara erfitt að heyra hvort sé með Mew eða hinni dönsku Kashmir!

Ekki svo að skilja að tónlistin sé ekki góð. Tónlistin er bara alveg ágæt og vel á hlustandi. Fólk sem hlustar á hljómsveitir á borð við Sigur Rós, Coldplay, Radiohead og e.t.v. amerískar popp-rokk sveitir, ætti alveg að líka vel við tónlist Mew.
Tónlistin er stundum algjört síbylju rokk í gegn en önnur lög fara með þig í ferðalag. Ýmist ertu stödd/staddur meðal angurværra gítarhljóma úti á sléttum rúmsjó eða uppi á fjalli í þoku. Allt í einu ertu komin/nn í ameríska unglingabíómynd um flækjur og vandamál átján ára útskriftarnema. Þú veist ekki hvort þú átt að vera glöð/glaður eða döpur/dapur því tónlistin rokkar allan tilfinningaskalann þar á milli. Trommuslátturinn smellur vel þarna inn í þar sem hjartað í þér slær ýmist glaðlega og hratt eða dapurlega og hægt, og missir þar á milli úr slög. Hvaða tilfinning gæti þetta verið? Gæti verið að við séum komin að sömu gömlu marg tyggðu tuggunni, ástinni? Já, ætli það ekki, en í þetta sinn virkar hún alveg ágætlega í þeim lögum hjá Mew sem fjalla um ástina.

Rýnir vill mæla með lögunum 156, Her Voice is Beyond Her Years, She Spider og Then I Run.
Þrátt fyrir allan ófrumleikann hjá þessari frumlegu hljómsveit fær hún tvær fjórðupartsnótur fyrir skemmtilega tónlist.

Meira er hægt að fræðast um Mew á www.mewsite.com.

mánudagur, febrúar 02, 2004
 
Endileg skrifið í kommentakerfið og segið hvað ykkur finnst um þessa síðu!

Powered by Blogger